82. fundur
fjárlaganefndar á 145. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, miðvikudaginn 21. september 2016 kl. 10:15


Mættir:

Vigdís Hauksdóttir (VigH) formaður, kl. 10:15
Guðlaugur Þór Þórðarson (GÞÞ) 1. varaformaður, kl. 10:50
Oddný G. Harðardóttir (OH) 2. varaformaður, kl. 10:15
Ásmundur Einar Daðason (ÁsmD), kl. 10:50
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (BjG), kl. 10:15
Brynhildur Pétursdóttir (BP), kl. 10:15
Haraldur Benediktsson (HarB), kl. 10:50
Valgerður Gunnarsdóttir (ValG), kl. 10:50

Páll Jóhann Pálsson var fjarverandi vegna starfa á vegum Alþingis erlendis.

Nefndarritarar:
Jón Magnússon
Ólafur Elfar Sigurðsson

Bókað:

1) Fjárhagsstaða framhaldsskóla Kl. 10:15
Til fundar við nefndina komu Gísli Þór Magnússon, Marta Guðrún Skúladóttir og Ólafur Sigurðsson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Gestirnir ræddu fjárveitingar til framhaldsskólanna af fjárlagaliðnum framhaldsskólar almennt árin 2011 og 2015 og þær reglur sem notaðar voru við úthlutunina. Nokkru áður hafði fjárlaganefnd fengið sent yfirlit um þær frá ráðuneytinu. Auk þess svöruðu gestirnir spurningum nefndarmanna.

2) Einkavæðing bankanna hin síðari Kl. 11:14
Lögð var fram skýrsla Vigdísar Hauksdóttur til fjárlaganefndar um einkavæðingu bankanna hina síðari. Formaður og varaformaður lögðu til að skýrslunni yrði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Því næst var skriflegum fyrirspurnum Oddnýjar G. Harðardóttur frá síðasta fundi svarað af formanni. Þau svör voru:
„Vinnu við gerð skýrslunnar/samantektarinnar var stýrt af formanni fjárlaganefndar.
Kostnaður við gerð skýrslunnar vegna sérfræðiaðstoðar var 90.000 kr.
Fjárlaganefnd er ekki rannsóknarnefnd og boðar ekki einstaklinga til skýrslugerðar.“
Oddný G. Harðardóttir taldi svörin ekki fullnægjandi og benti m.a. á að ekki komi fram hverjir unnu að gerð skýrslunnar með formanni. Meiri hlutinn taldi ekki eðlilegt að þingmenn gerðu grein fyrir hverjir aðstoðuðu þá.
Gengið var til atkvæða um frávísunartillögu Oddnýjar G. Harðardóttur og var henni hafnað með atkvæðum Vigdísar Hauksdóttur, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, Valgerðar Gunnarsdóttur, Haraldar Benediktssonar og Ásmundar Einars Daðasonar. Oddný G. Harðardóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Brynhildur Pétursdóttir samþykktu tillöguna.
Þá var gengið til atkvæða um tillögu formanns að vísa skýrslunni til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Tillagan var samþykkt með atkvæðum Vigdísar Hauksdóttur, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, Valgerðar Gunnarsdóttur, Haraldar Benediktssonar og Ásmundar Einars Daðasonar. Oddný G. Harðardóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Brynhildur Pétursdóttir greiddu atkvæði gegn tillögunni. Páll Jóhann Pálsson sem var fjarverandi fundinn er samþykkur afgreiðslu meiri hluta nefndarinnar.
Í ljósi skýrslu Vigdísar Hauksdóttur sem hefur verið beint til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vildu undirritaðir fjárlaganefndarmenn leggja fram eftirfarandi bókun. „Undirritaðir þingmenn ítreka mikilvægi þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hrindi af stað rannsókn og að leynd á gögnum er varða málið verði aflétt. Þingmenn innan stjórnarmeirihluta fjárlaganefndar hafa fengið beinar hótanir um æru- og eignamissi frá háttsettum embættismanni eftir að skýrslan hafði verið kynnt. Kvörtun vegna þess verður sett í viðeigandi farveg. Í ljósi þeirra viðbragða telja undirritaðir enn frekar mikilvægt að rannsókn fari fram. Guðlaugur Þór Þórðarson, Ásmundur Einar Daðason, Haraldur Benediktsson, Páll Jóhann Pálsson, Valgerður Gunnarsdóttir.“
Minni hluti fjárlaganefndar lagði fram eftirfarandi bókun: „Minni hluti fjárlaganefndar mótmælir harðlega vinnubrögðum meiri hluta fjárlaganefndar við kynningu og meðferð „skýrslu“ um endurreisn bankakerfisins sem nefnd hefur verið „einkavæðing bankanna hina síðari“. Minni hluti fjálaganefndar lagði til að vegna málatilbúnaðar yrði málinu vísað frá en sú tillaga var felld af meiri hlutanum. Svokölluð skýrsla sem lögð var fram þann 12. sept. sl. er á ábyrgð meiri hluta nefndarinnar. Sú skýrsla var kynnt á blaðamannafundi án þess að nefndin hefði fjallað um málið og uppfyllir engin skilyrði þess að geta talist skýrsla þingnefndar. Á fundi nefndarinnar þann 21. september var lögð fram önnur skýrsla um sama efni í nafni formanns nefndarinnar sem gerir þessi vinnubrögð enn einkennilegri. Alvarlegt er að einstaklingar séu bornir svo þungum sökum eins og meiri hluti fjárlaganefndar gerir í nafni fjárlaganefndar Alþingis. Það er eðlileg krafa að málið verði látið niður falla og meiri hlutinn biðjist afsökunar á framferði sínu.“

3) Önnur mál Kl. 11:44
Fleira var ekki gert.

4) Fundargerð Kl. 11:45
Fundargerð 81. fundar var samþykkt.

Fundi slitið kl. 11:46